Óþekktir byssumenn skutu borgarstjóra sem Rodrigo Duterte forseti Filippseyja sakaði um að vera tengdur fíkniefnasmygli til bana í dag. Lögreglumenn voru að flytja borgarstjórann á milli staða þegar morðingjarnir veittu þeim fyrirsát og skutu hann.
Reuters-fréttastofan segir að David Navarro, borgarstjóri á eyjunni Mindanao, hafi verið handtekinn í gær, sakaður um að ráðast á nuddara í bænum Cebu. Verið var að flytja hann á skrifstofu saksóknara í borginni þegar hann var skotinn til bana.
Duterte forseti setti nafn Navarro á lista um stjórnmálamenn sem hann sakaði um tengsl við fíkniefnaglæpi og birtur var opinberlega fyrir þingkosningar í maí.
Þúsundir manna hafa verið drepnir í stríði Duterte gegn fíkniefnum, fjöldi þeirra utan dóms og laga. Lögreglan segist sjálf hafa drepið 6.700 „fíkniefnasala“ í skotbardögum á þeim þremur árum sem liðin eru frá kjöri Duterte.
Mannréttindasamtök og vestræn ríki hafa fordæmt mannréttindabrot í fíkniefnastríði Duterte. Filippseysk stjórnvöld brugðust hart við því þegar ályktun sem Ísland lagði fram í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um að staða mannréttinda á Filippseyjum yrði rannsökuð var samþykkt í sumar.
Borgarstjóri sem Duterte benti á myrtur

Tengdar fréttir

Duterte blótar Íslendingum í sand og ösku og vonar að þjóðin frjósi í hel
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, sparaði ekki stóru orðin um Ísland og Íslendinga í ræðu sem hann hélt í gær í Quezon-borg á Filippseyjum. Gagnrýndi hann stefnu Íslands hvað varðar þungunarrof harkalega. Kallaði hann Íslendinga drullusokka og fábjána, auk þess sem að hann sagðist vona að þjóðin frjósi í hel.

Neyðarráðstefna á Íslandi vegna mannréttindabrota á Filippseyjum
Tveggja daga neyðarráðstefna verður haldin hér á landi dagana 20. til 22. september þar sem kastljósinu verður beint að mannréttindabrotum stjórnvalda á Filippseyjum.