Tálknfirðingar urðu fyrir miklu áfalli fyrir fjórum árum þegar fiskvinnslu Þórsbergs var lokað en í framhaldinu fækkaði íbúum um sextíu manns. En smámsaman hefur samfélagið á Tálknafirði verið að ná vopnum sínum á ný, nú síðast með opnun seiðaeldisstöðar Arctic Fish í botni fjarðarins.

Þau eru raunar þrjú, fiskeldisfyrirtækin á Tálknafirði; Arnarlax, Artic Fish og Tungusilungur, og áætlar sveitarstjórinn að starfsmannafjöldi þeirra sem tengjast fiskeldi í sveitarfélaginu nálgist núna eitthundrað manns.

Fjárfesting Arctic Fish í seiðaeldisstöðinni nemur hartnær fjórum milljörðum króna en hún var formlega opnuð með viðhöfn síðastliðinn föstudag.
Sjá hér: Tálknfirðingar fögnuðu opnun seiðaeldisstöðvar Arctic Fish
„Þetta er stór vinnustaður hér, í rauninni stærsta fyrirtækið orðið hérna í atvinnurekstri á þessu svæði,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish.

Einar K. Guðfinnsson var áður ráðherra og þingmaður kjördæmisins þegar stöðugt hallaði undan fæti en er núna talsmaður fiskeldisfyrirtækjanna.
„Þetta er auðvitað okkar stærsta tækifæri í atvinnumálum sem við höfum séð um margra áratuga skeið. Og þetta er þegar farið að skila miklum árangri og farið að snúa við byggðaþróuninni þar sem hún hefur verið neikvæð undanfarna áratugi,“ segir Einar K. Guðfinnsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: