Úrslitarimman í bandaríska hafnaboltanum, World Series, er með hreinum ólíkindum en sjötti útisigurinn í röð kom í nótt.
Þá náði Washington Nationals að þvinga fram oddaleik gegn Houston Astros með því að vinna 7-2 sigur í Houston.
Staðan í einvíginu er 3-3 en allir sigrarnir í þessari rimmu hafa komið á útivelli. Houston er á heimavelli í oddaleiknum.
Astros komst 2-1 yfir í fyrstu lotu en Nationals komst í 3-2 í fimmtu lotu. Liðið gekk svo frá leiknum með tveimur stigum í sjöundu lotu og svo aftur í þeirri níundu. Heimamenn skoruðu ekki stig fyrir utan stigin í fyrstu lotu.
Það er því allt undir er liðin spila oddaleikinn í kvöld.
