Fótbolti

Erum fjórum árum á undan áætlun

Hjörvar Ólafsson skrifar
Milos Milojevic.
Milos Milojevic. vísir/ernir
Mjällby sem leikur undir stjórn Milos Milojevic tryggði sér á mánudagskvöldið sæti í sænsku efstu deildinni í knattspyrnu karla. Milos var gerður að aðalþjálfara Mjällby um miðjan júnímánuð árið 2018 og stýrði liðinu upp í B-deildina í fyrstu tilraun. Liðinu var spáð fallbaráttu í B-deildinni en blés á þær spár og hefur tryggt sér sæti í efstu deild þegar ein umferð er eftir af B-deildinni.

„Það er mjög ljúf tilfinning að vera búnir að tryggja okkur sætið fyrir lokaumferðina. Þegar ég kom hingað var ég einnig ráðinn sem yfirþjálfari akademíunnar og markmiðið var að búa til umhverfi þar sem að góðir yngri leikmenn af svæðinu myndu vilja koma í akademíuna. Við vildum búa til bestu akademíu á því svæði í Svíþjóð þar sem Mjällby er. Félagið skuldaði tæplega 40 milljónir íslenskra króna þannig að það var á hreinu að við yrðum að byggja upp frá grunni og við gætum ekki fjárfest í dýrum leikmönnum,“ segir Milos um upphaf veru sinnar í Mjällby.

„Hvað mig sjálfan varðar þá var ég með tilboð sem voru fjárhagslega betri en mig langaði að komast út úr þægindarammanum og takast á við nýja áskorun og ég sé ekki eftir því núna. Við erum komnir með U-17, U-19 og A-liðin okkar í efstu deild og það er frábært afrek að mínu mati. Mjällby er félag sem var í efstu deild fyrir sex árum og það var á stefnuskránni hjá stjórninni að komast þangað aftur 2023 þannig að við erum fjórum árum á undan áætlun,“ segir þjálfarinn hreykinn.

„Afrekið er ekki síst mikið þar sem við erum með ódýrasta lið deildarinnar hvað launakostnað varðar. Meðallaun hjá okkur eru rúmlega 200.000 íslenskar krónur fyrir skatt þannig að við erum ekki með dýrt lið. Þá erum við þar að auki með næstyngsta lið deildarinnar og það lið sem er það yngsta er í harðri fallbaráttu. Við erum með 13 leikmenn sem eru annaðhvort uppaldir hjá Mjällby eða hafa komið til okkar frá öðrum félögum í kringum okkur eins og Halmstad, Helsingborg og Malmö. Þessir leikmenn eru um tvítugt og hafa þroskast hratt og vel,“ segir hann um það hvernig liðið er upp byggt.

„Félagið er komið í réttan farveg hvað fjárhagslegu hliðina varðar og nú getum við vonandi farið að fjárfesta í leikmönnum og fjölga í þjálfarateyminu. Við erum að vinna mjög faglega, sérstaklega þegar tekið er mið af því hversu þjálfarateymið er lítið. Við höfum náð að búa þannig um hnútana að við erum að mæla æfingaálagið og taka leikmenn í próf reglulega. Þannig höfum við komið í veg fyrir að leikmenn séu að detta út í meiðslum sem rekja mætti til álags, það er tognanir aftan í læri og aðrar vöðvatognanir. Það hefur krafist mikillar vinnu af mér og þeim sem eru að starfa með mér,“ segir Milos um starfsumhverfið hjá félaginu.

„Eins og staðan er núna er ég með spænskan aðstoðarþjálfara, markmannsþjálfara á öllum æfingum og sjúkraþjálfara sem er í 60% starfi hjá okkur en ég hef náð að plata í að vera á öllum æfingum og leikjum. Við erum svo með tvo liðsstjóra og annar þeirra er þúsundþjalasmiður og sér meðal annars um að nudda leikmennina. Ég myndi vilja bæta við styrktarþjálfara, auka starfshlutfallið hjá sjúkraþjálfaranum og ráða inn nuddara í fullt starf fyrir næsta tímabil. Þá þurfum við að bæta minnst fjórum og helst sex gæðaleikmönnum við núverandi leikmannahóp. Það er einum leikmanni í hverja línu á vellinum, markmanni, miðverði, miðjumanni og sóknarmanni,“ segir þessi metnaðarfulli þjálfari.

„Það sem ég ætla hins vegar að gera fyrst er að framlengja samninga við þá leikmenn sem eru nú þegar í leikmannhópnum og ég vil halda. Það eru fjórir leikmenn sem ég myndi vilja hafa áfram í herbúðum okkar sem eru með lausa samninga. Fyrsta mál á dagskrá eftir næstu helgi er að semja við þá leikmenn. Svo fer ég í það að kanna hvernig landið liggur og hvaða leikmenn ég get fengið af leikmannamarkaðnum. Ég er kominn með gagnagrunn yfir leikmenn sem ég þekki vel og þeir eru hér og þar um heiminn. Ég mun fyrst kanna það hvaða leikmenn eru í boði á sænska markaðnum og svo mun ég líta til Íslands og annarra staða hvað leikmenn varðar,“ segir Milojevic um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×