Þar segir hann forsvarsmenn Háskóla Íslands muni ekki láta það líðast. Hefur hann beðið umsjónarmenn fasteigna Háskóla Íslands um að vera á varðbergi og henda öllum kynþáttaáróðri rakleitt þangað sem hann á heima, í ruslið.
„Jafnrétti er leiðarljós í starfi Háskóla Íslands og grundvöllur fjölbreytni og virðingar í háskólasamfélaginu. Þess vegna hryggir það mig að sjá að samtök þjóðernissinna hafa undanfarna daga dreift um háskólasvæðið hatursfullum og rasískum skilaboðum,“ skrifar Jón Atli og bætir við:
„Í Háskóla Íslands eiga allir að upplifa sig örugga og við eigum öll að hjálpast að við að tryggja að virðing sé borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins.“
Þjóðernissamtökin sem standa fyrir þessari dreifingu nefnast Norðurvígi sem hafa áður dreift áróðri á háskólasvæðinu. Er um að ræða límmiða sem hafa verið límdir á fasteignir en bæði starfsfólk og nemendur skólans hafa fjarlægt þá jafn harðan. Þá hafa samtökin einnig sett dreifimiða í pósthólf á stúdentagörðum.

Hafa þessi samtök verið kölluð nýnasistahreyfing en embætti ríkislögreglustjóra fjallaði um þessi samtök í greiningu sinni á hættu á hryðjuverkum hér á landi.
Á vef Norðurvígis kemur fram að um sé að ræða borgaralega og löglega stjórnarandstöðuhreyfingu. Vilja samtökin stöðva stór innflutning á fólki til landsins og vilja vinna með öllum ráðum að því að taka völdin af alþjóðlegum Síonistum sem „valdi eða fjármunum stjórna stórum hluta þessa heims.“