Samkvæmt tilkynningu frá Senu Live hefur Noah selt upp sýningar í fimm heimsálfum og einnig skrifað, framleitt og farið með aðalhlutverkið í átta grín sérþáttum. „en sá nýjasti er Son of Patricia á Netflix. Hann er þekktur um allan heim fyrir að taka á pólitík og fréttum samtímans með innsæi og húmor sem hittir í mark.“
Við höfum reglulega fjallað um Noah hér á Vísi, enda er hann duglegur að tjá sig um málefni líðandi stundar, eins og ákvarðanir Donalds Trump svo eitthvað sé nefnt.
„Trevor er fæddur í Suður-Afríku, á suður-afríska móður og hvítan föður af Evrópuættum. Hjónaband foreldra hans var ólöglegt á tímum aðskilnaðarstefnunnar og þurftu þau að halda því leyndu, en uppeldi hans er oft stór hlutu af uppistandinu þar sem hann deilir reynslu sinni og sögum frá æsku.“
Einn af 100 áhrifamestu manneskjum heims
Hann fer í heimsferðalag árið 2020 með sýningu sína LOUD & CLEAR og kemur hann til Reykjavíkur þar sem hann verður með sýningu í Laugardalshöllinni 26. maí. 75 uppseldar sýningar eru að baki í Bandaríkjunum, þar á meðal er uppselt sýning í Madison Square Garden þar sem búist er við 14.000 gestum.„Túrinn byrjar 10. janúar í Buffalo New York, en hann heldur svo til fjölda landa í Evrópu, Indlands og víðar. Nú þegar er ein sýninga í 02 Arena í London uppseld en 15.000 þúsund miðar seldust upp á augabragði og er nú verið að bæta við aukasýningu þar,“ segir í tilkynningu skipuleggjanda.
Listinn yfir verðlaun sem Noah og þáttur hans hafa hlotið eða verið tilnefnd til er langur, en þar á meðal má nefna GLAAD, Writers Guild Award, NAACP, MTV Movie & TV Awards, Creative Arts Emmy Award og Primetime Emmy. Hann hefur verið nefndur sem einn af 100 áhrifamestu manneskjum heims af Time og einn af 35 áhrifamestu fjölmiðlamönnum heims af The Hollywood Reporter.