Jónatan Magnússon var stoltur af liði sínu sem vann tveggja marka sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta í dag.
„Ég er rosa glaður og mjög stoltur. Við spiluðum frábæran handbolta, það er bara þannig,“ sagði Jónatan eftir leikinn. KA vann 27-25 sigur í Safamýrinni.
„Við ætluðum að reyna að fá upp vörn og hægja á Frömurunum. Varnarlega vorum við frábærir, 3-2-1 vörnin var mjög góð og Fram lenti í basli.“
„Ég er mjög ánægður með liðið mitt í dag.“
Eftir að hafa verið 14-10 yfir í hálfleik og komist mest fimm mörkum yfir í seinni hálfleik misstu KA menn leikinn aðeins niður og hefðu Framarar getað stolið stigi á loka mínútunum.
„Við komum okkur í góða stöðu í seinni hálfleik, en þeir fóru í 7-6 og þetta varð svolítið skrautlegur handbolti, mikið af töpuðum boltum á tímabili.“
„Það sem kom okkur í gegn var það sem við settum inn í leikinn, hugarfarið. Við ætluðum að hafa kaldan haus og á endanum vorum við með kaldari haus en Framararnir.“
