Samninganefndir Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins náðu ekki samningum á fundi nefndanna hjá Ríkissáttasemjara í dag, sem hófst klukkan 13:30. Átta stunda vinnustöðvun meðlima Blaðamannafélagsins hefst því á morgun klukkan 10.
Vinnustöðvunin nær til þeirra blaðamanna sem starfa samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélagsins á stærstu netmiðlum landsins; Vísi.is, mbl.is, Fréttablaðinu.is og ruv.is. Engar nýjar fréttir munu birtast á miðlinum á fyrrnefndu átta klukkustunda tímabili.
Sambærileg, fjögurra stunda vinnustöðun fór fram á föstudag í síðustu viku. Starfsmenn Morgunblaðsins gengu þá í störf blaðamanna vefmiðilsins og kærði Blaðamannafélagið mbl.is því til Félagsdóms fyrir verkfallsbrot, alls 30 tilfelli. Átján blaðamenn miðilsins lýstu yfir vonbrigðum með athæfi samstarfsmanna sinna, sem þeir sögðu hafa verið með vitunda og vilja yfirmanna sinna.
Enginn Félagsdómur er þó starfandi sem stendur en gengið er út frá því að hann verði fullskipaður í næstu viku. Ætla má að fyrrnefndu verkfallsbrotin verði þá tekin fyrir.
Takist Blaðamannafélaginu og Samtökum atvinnulífsins ekki að ná samningum á næstunni munu blaðamann aftur leggja niður störf föstudaginn 22. nóvember, þá í tólf klukkustundir frá 10 til 22. Hafi enn ekki verið samið munu blaðamenn sem starfa við Fréttablaðið og Morgunblaðið leggja niður störf fimmtudaginn 28. nóvember.
Fréttir verða þó áfram sagðar á Bylgjunni á heila tímanum á morgun, venju samkvæmt. Fréttir Stöðvar 2 verða á sínum stað klukkan 18:30.
Blaðamenn leggja aftur niður störf

Tengdar fréttir

Þrjátíu tilfelli um meint verkfallsbrot hjá Morgunblaðinu og eitt hjá RÚV
Blaðamannafélag Íslands hefur kært RÚV og Morgunblaðið fyrir meint verkfallsbrot en formaður félagsins óttast að Félagsdómur verði ekki búinn að komast að niðurstöðu fyrir næstu verkföll sem eru á föstudag.