Þetta sagði Raphael Honigstein, þýskur blaðamaður og höfundur ævisögu Jürgens Klopp, í samtali við Vísi í gær.
„Eftir því sem ég kemst næst er enginn möguleiki á því að Wenger taki við,“ sagði Honigstein.
„Það hefur víða komið fram að Wenger og Karl-Heinz Rummenigge ræddust við í síma. Wenger trúði því kannski að honum hefði verið boðið starfið en Bayern er ekki á sama máli.“
Honigstein segir allt eins líklegt að Hansi Flick, sem stýrði Bayern til 4-0 sigurs á Borussia Dortmund á laugardaginn, fái stjórastarfið hjá þýsku meisturunum. Flick tók við Bayern eftir að Niko Kovac var látinn fara í síðustu viku.
„Eftir sigurinn á Dortmund, sem var svo sannfærandi, ákvað Bayern að það væri engin ástæða til að hafa bráðabirgðastjóra. Svo Wenger er ekki í umræðunni, jafnvel þótt Bayern hafi kannað stöðuna hjá honum,“ sagði Honigstein.
„Mér skilst að Wenger hafi aldrei verið líklegur kostur í stöðunni, öfugt við Ralf Rangnick, Thomas Tuchel og Erik ten Hag. Þeir tveir síðastnefndu sögðu Bayern að þeir væru ekki lausir núna. Hansi Flick á möguleika á að verða stjóri Bayern. Ef ekki, þá fær Bayern tækifæri til að vanda sig og taka sér tíma í að finna rétta manninn. Þeir vilja ekki fá stjóra fyrir 2-3 ár heldur einhvern sem getur verið þarna í 5-7 ár og gert eitthvað sérstakt. Mig grunar að þeir reyni við einhvern eins og Ten Hag eða Tuchel.“