Þórólfur birti í kvöld myndband á Facebook sem einn af viðskiptavinum hans tók í fjörunni en Þórólfur var á ferð með hópi af ferðamönnum í Reynisfjöru á milli klukkan 14 og 15.
Fyrr í kvöld sagði Vísir frá því að ferðamaður hefði slasast eftir að hafa lent í sjónum í Reynisfjöru í miklum öldugangi en tilkynning um slysið barst lögreglu um klukkan 15.
Aðstæður í fjörunni við hafa því væntanlega ekki verið ósvipaðar því sem sést hér í myndbandinu fyrir neðan sem er tekið skömmu áður en útkallið berst. Eins og sést voru ferðamennirnir í stórhættu vegna öldugangsins.
Hann fer mikið í Reynisfjöru vegna vinnu sinnar og segir þetta ekki algenga sjón.
„Nei, ég hef ekki oft séð þetta áður, náttúrulega myndbönd, en ég hef aldrei séð fjöruna svona rosalega,“ segir Þórólfur.
Hann segist hafa þá tilfinningu að fólk sem fari út í fjöruna við svona hættulegar aðstæður séu frekar ferðamenn á eigin vegum heldur en fólk í hópi með leiðsögumanni.
„Eins og í mínu fyrirtæki þá lesum við alveg yfir hausunum á þeim, þótt það sé gott veður þá segjum við þeim alltaf að fara varlega og bendi bara á að fólk hafi týnt lífi sínu þarna. Svo getur það líka lesið skiltin á leiðinni,“ segir Þórólfur.