Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, var ósáttur við leik sinna manna í dag eftir sjö marka tap á Ásvöllum. Hann segir þetta skammarlegt.
„Við vorum alls ekki nógu góðir. Við vorum á hælunum varnarlega, þú vinnur ekki Hauka þannig,“ sagði Grímur eftir leikinn.
„Þetta er nátturlega ekki boðlegt, ég þarf að fara yfir þetta með strákunum. Að sýna ekki ákefð og tempó í svona leik er skammarlegt.“ sagði Grímur hundfúll með frammistöðu sinna manna í dag
„Haukarnir voru bara betri á öllum sviðum, svo einfalt er það.“
Haukur Þrastarson var sem fyrr atkvæðamestur í liði Selfoss, Haukarnir reyndu hvað þeir gátu að loka á hann og tókst það á köflum. Grímur viðurkennir að hann þurfi virkilega á framlagi frá öðrum leikmönnum sóknarlega.
„Jú ég þarf það en menn verða líka að stíga upp sjálfir. Ég töfra ekki kanínur upp úr hatti. Menn verða að sækja á markið og hafa hjarta í það að taka af skarið,“ sagði Grímur að lokum.
Grímur: Ég töfra ekki kanínur upp úr hatti

Tengdar fréttir

Leik lokið: Haukar - Selfoss 36-29 | Haukar hefndu ófaranna frá því í úrslitaeinvíginu
Haukar eru með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar.