Play kynnti sig fyrir fjárfestum í upphafi mánaðar sem fyrsta alvöru lággjaldaflugfélagið á Íslandi, eða eins og sagði á einni glæru fjárfestakynningar Play:
Markmiðið er skýrt - að halda kostnaði í lágmarkiForstjóri félagsins lagði einnig áherslu á kostnaðaraðhald á blaðamannafundi á þriðjudag. Áhersla félagsins á stundvísi og einfaldleika muni draga úr kostnaði, sem svo skili sér í lægra verði til neytenda.
„Svo erum við lággjaldaflugfélag og við höfum unnið rosalega vel að samningagerð og að halda kostnaði á réttum stað. Þannig að við ætlum að bjóða upp á hagstæð verð frá fyrsta degi,“ sagði Arnar Már Magnússon á þriðjudag.
Helmingi minni yfirbygging
Í fjárfestakynningu flugfélagsins er sagt að þessir samningar muni spara félaginu alls 70 milljónir dala á næstu þremur árum, næstum 9 milljarða króna, samanborið við samningana sem WOW air gerði á sínum tíma.Þannig ætlar Play að útvista viðhaldi og flugafgreiðslu í Keflavík til þriðja aðila, sem mun lækka kostnað um 3 milljarða.
Þá þurfi Play ekki að leggja út í 1900 milljóna króna þjálfunarkostnað, WOW air hafi staðið straum af þeim kostnaði, auk þess sem ný vefsíða og bókunarvél félagsins muni lækka kostnað um 440 milljónir.
Sjá einnig: Play bjóði góð laun en ekkert skutl út á flugvöll
Mesti sparnaðurinn verður þó á starfsmannahliðinni ef marka má fjárfestakynninguna. Hagstæðari kjarasamningar og færri starfsmenn muni spara félaginu sjö milljarða á næstu þremur árum.
Launakostnaður vegna flugmanna verður að meðaltali 500 þúsund krónum lægri á mánuði en var hjá WOW air, og allt að 260 þúsund krónum lægri fyrir aðra áhafnarmeðlimi. Ekki er þó um hreina launalækkun að ræða heldur felur kjarasamningurinn í sér ýmsar hagræðingar og tilfærslur; til að mynda verður girt fyrir kaup á frídögum, lífeyrisgreiðslur verða við lögbundið lágmark auk þess sem bílastyrkir koma í stað rútuferða til Keflavíkur.
Að auki ætlar flugfélagi ekki að vera með fleiri en 50 starfsmenn fyrir hverja flugvél í flotanum, samanborið við 75 hjá WOW og rúmlega 100 hjá Icelandair.
Talsmaður Play sagði við Vísi á föstudag að þrátt fyrir fyrrnefndan sparnað muni félagið bjóða upp á góð laun og ýmis fríðindi. Það sé liður í því að gera Play að góðum vinnustað, en um 2000 manns hafa þegar sótt um störf hjá flugfélaginu.