Tottenham vann sigur í fyrsta heimaleik Jose Mourinho eftir að hafa lent tveimur mörkum undir gegn Olympiacos á heimavelli.
Olympiacos var fyrir leikinn án sigurs í B-riðli Meistaradeildar Evrópu og því kom það nokkuð á óvart þegar gestirnir frá Grikklandi komust yfir.
Youseff El Arabi skoraði á sjöttu mínútu þegar boltinn féll fyrir hann við vítateigshornið. Olympiacos komst svo tveimur mörkum yfir þegar Ruben Semedo skoraði á 19. mínútu.
Martraðarbyrjun fyrir nýju lærisveina Jose Mourinho.
Undir lok fyrri hálfleiks náði Tottenham að laga stöðuna aðeins, Dele Alli skoraði í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.
Harry Kane jafnaði metin eftir sendingu frá Lucas í upphafi seinni hálfleiks og Tottenham komst svo yfir með marki Serge Aurier á 73. mínútu.
Kane gulltryggði svo sigur Tottenham með skallamarki eftir aukaspyrnu Christian Eriksen á 77. mínútu.
Leiknum lauk með 4-2 sigri Tottenham sem tryggði þar með farseðil sinn áfram í útsláttarkeppnina, Tottenham er nú með 10 stig, sjö stigum meira en Rauða stjarnan í þriðja sætinu þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.
