Handbolti

Guðmundur Helgi: Þetta var skelfilegt frá A til Ö

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur og strákarnir hans eru án sigurs í fimm leikjum í röð.
Guðmundur og strákarnir hans eru án sigurs í fimm leikjum í röð. vísir/bára
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var niðurlútur eftir tapið fyrir FH, 26-36, í dag.

„Döhler lokaði á okkur. Ég veit ekki hvað hann varði mörg skot. En fyrst og fremst var stemmningsleysi í okkar liði. Þetta var ekki gott,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi eftir leik.

Ekki stóð steinn yfir steini í vörn Fram í fyrri hálfleik þar sem liðið fékk á sig 20 mörk.

„Vörnin hefur verið fín í vetur en þetta var skelfilegt frá A til Ö. Þegar þú spilar ekki vel gegn FH rúlla þeir yfir þig. Þeir voru miklu betri en við,“ sagði Guðmundur.

Sóknarleikur Fram var ekki mikið skárri en varnarleikurinn. Framarar tóku oft og iðulega slæmar ákvarðanir og skot úr erfiðum færum.

„Við höfum margoft farið yfir það og förum yfir það á næstu æfingu. Við vorum ekki rétt stilltir í dag,“ sagði Guðmundur.

Stefán Darri Þórsson fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks. Guðmundi fannst það harður dómur.

„Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en mér fannst hann sækja í manninn. Þar af leiðandi átti þetta ekki að vera rautt spjald,“ sagði Guðmundur.

Næsti leikur Fram er gegn Val á heimavelli. Guðmundur vill sjá betra hugarfar hjá sínum mönnum í þeim leik.

„Við þurfum að ná baráttuandanum aftur upp. Þegar hann dettur út er Fram ekki mikið. Við þurfum bara að berja okkur saman,“ sagði Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×