Handbolti

Gunnar hættir með Hauka eftir tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar er á sínu fimmta tímabili með Hauka.
Gunnar er á sínu fimmta tímabili með Hauka. vísir/bára

Gunnar Magnússon hættir sem þjálfari karlaliðs Hauka í handbolta eftir tímabilið.

Gunnar greindi frá þessu í hlaðvarpsþættinum Haukahornið í gær.

„Það hefur legið fyrir frá byrjun tímabilsins að þetta yrði mitt síðasta tímabil með meistaraflokk karla hjá Haukunum. Það er þannig að ég er að klára mitt fimmta ár núna og ég setti mér það markmið þegar ég kom í klúbbinn að vera ekki hérna of lengi og kveðja með reisn og geta þá komið aftur,“ sagði Gunnar. Hann segist hafa ákveðið í sumar að þetta tímabil yrði hans síðasta með Hauka.

Gunnar tók við Haukum af Patreki Jóhannessyni 2015. Undir hans stjórn urðu Haukar Íslandsmeistarar 2016 og deildarmeistarar 2016 og 2019. Á síðasta tímabili komust Haukar í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn en töpuðu fyrir Selfossi, 3-1.

Áður en Gunnar kom til Hauka var hann þjálfari ÍBV og gerði Eyjamenn að Íslands- og bikarmeisturum.

Auk þess að þjálfa Hauka er Gunnar aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og yfirþjálfari yngri landsliða HSÍ.

Haukar eru í efsta sæti Olís-deildar karla eftir 14 umferðir. Gunnar var valinn besti þjálfari fyrri hluta mótsins af Seinni bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×