Fótbolti.net greinir frá því í dag að Guðjón Þórðarson komi til greina sem næsti þjálfari færeyska landsliðsins í knattspyrnu.
Guðjón á að hafa fundað með færeyska sambandinu sem leitar nú að þjálfara eftir að samningurinn við Lars Olsen rann út í síðasta mánuði.
Ef marka má viðtal við formanns knattspyrnusambands Færeyja, Christian Andreasen, höfðu margir áhuga á starfinu en nú séu innan við fimm þjálfarar eftir á blaðinu.
Guðjón Þórðarson fundaði með færeyska sambandinu https://t.co/Gx54e9rfTl
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) December 10, 2019
Guðjón þjálfaði í Færeyjum á þessu ári en hann þjálfaði lið NSÍ. Hann endaði í 3. sæti deildarinnar en hætti með liðið eftir leiktíðina.
Taki Guðjón við færeyska landsliðinu verður það ekki fyrsta landsliðið sem hann þjálfar því hann stýrði íslenska landsliðinu frá 1997 til 1999.