Hiti fór yfir fjörutíu stig í öllum ríkjum Ástralíu í dag. Hamfarirnar í landinu ætla engan enda að taka og kviknuðu sjötíu nýir gróðureldar í Viktoríu-ríki í dag. Ástandið er verst þar og var ferðamönnum og íbúum East Gippsland í ríkinu gert að yfirgefa svæðið í dag.
Andrew Crisp, yfirmaður hamfaravarna ríkisins, segir að eldarnir séu óútreknanlegir. Fólk þurfi að fylgjast afar vel með nýjum upplýsingum. „Þetta er hættulegur dagur hér í Viktoríu, þetta sjáum við ekki oft. Það er afar þurt og það verður mikill hiti, mikið rok. Fólk ætti að drífa sig á brott samstundis,“ sagði Crisp.
Alls hafa eldarnir brennt um fimmtíu þúsund ferkílómetra svæði. Það samsvarar nærri hálfu Íslandi. Níu hafa farist og nærri þúsund heimili brunnið til grunna.
Erlent