Ekki tókst að ljúka fyrstu umræðu um hið umdeilda frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga og atvinnuréttindi þeirra. Þingfundur stóð langt fram á kvöld eða til klukkan 00:05. Enn eru þingmenn á mælendaskrá frumvarpsins og var umræðunni því frestað.
Sjá einnig: Frumvarp um útlendinga umdeilt innan ríkisstjórnarinnar
Ungir jafnaðarmenn sendu í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem frumvarpið er fordæmt og skorað á ráðherra að draga það til baka. Þá er fullyrt að frumvarpið, sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn, hafi í för með sér að stór hópur fólks muni eiga enga von á að fá alþjóðlega vernd á Íslandi.
„Þá lýsa Ungir jafnaðarmenn yfir gífurlegum vonbrigðum yfir því að Vinstrihreyfingin - grænt framboð leyfi harðneskjulegri útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins að ráða för í ríkisstjórnarsamstarfinu,“ eins og það er orðað í yfirlýsingu UJ.