Ekki verður gripið til takmarkana á ferðalögum fólks innan Schengen-svæðisins vegna kórónuveirunnar þrátt fyrir að hún hafi náð útbreiðslu á Ítalíu, að sögn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ítölsk yfirvöld staðfestu fimmta dauðsfallið af völdum veirunnar þar í dag.
Á þriðja hundrað manns hefur smitast af kórónuveirunni á Ítalíu frá því á föstudag samkvæmt gögnum ítalskra yfirvalda. Langflest smitin hafa greinst í Langbarðalandi og Venetóhéraði á norðanverðri Ítalíu. Skólum, háskólum, söfnum og kvikmyndahúsum hefur verið lokað til að reyna að hefta útbreiðsluna.
Tilkynnt var um tvö dauðsföll til viðbótar á Ítalíu í dag. Í báðum tilfellum var um að ræða karlmenn á níræðisaldri í Langbarðalandi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Framkvæmdastjórn ESB segist undirbúa varaáætlanir vegna veirunnar þrátt fyrir að ferðatakmarkanir komi ekki til greina að svo stöddu. Stella Kyriakides, heilbrigðismálastjóri sambandsins, segir að ferðatakmarkanir verði að vera í samræmi við tilefnið og samhæfðar á meðal ríkjanna. Þær verði einnig að byggjast á vísindalegum rökum.
„Eins og sakir standa hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ekki mælt með því að setja takmarkanir á ferðalög eða viðskipti,“ sagði hún í dag.
Engu að síður vekja smitin á Ítalíu titring í álfunni. Frönsk yfirvöld stöðvuðu þannig farþega rútu sem kom frá Mílanó eftir að grunur vaknaði um að einn þeirra gæti verið smitaður af veirunni. Lögreglumenn strengdu borða í kringum rútuna og fylgdu farþegum á afmarkað svæði á Perrache-rútustöðinni í Lyon. Þeir voru með flensueinkenni voru fluttir á sjúkrahús, að sögn Reuters.