Stjórnvöld í Singapúr hafa greint um 700 kórónuveirusmit á dag í vikunni. Alls hafa greinst næstum 22 þúsund smit í landinu frá upphafi faraldursins, langflest meðal farandverkafólks, en Singapúr hefur sérstaklega verið hrósað fyrir að hafa tekið útbreiðsluna föstum tökum.
Þarlend stjórnvöld greindu þannig frá því í morgun að 768 ný smit hafi greinst á milli daga. Nú eru næstum 1400 smitaðra á spítala í Singapúr, þar sem fjórir heilbrigðisstarfsmenn hafa smitast, en 20 hafa látið lífið það sem af er faraldri. Tíu af þeim sem greindust á síðasta sólarhring eru innfæddir Singapúrar en 725 smit greindust meðal farandverkafólks sem hefst jafnan við í mannmörgum vistarverum.
Rúmlega 200 þúsund farandverkamenn frá Bangladess, Indlandi og öðrum Asíuríkjum búa nú í Singapúr, þar sem heildarfjöldi íbúa er um 6 milljónir. Tugþúsundir þeirra hafa verið skikkaðir í sóttkví og þurfa því að hafast við í mannmörgum svefnsölunum, en aðrir hafa verið fluttir á aðra staði til að draga úr þrengslum.
Mikil fjögun frá aprílbyrjun
Dagleg smit í Singapúr voru innan við 100 á dag í aprílbyrjun og horfðu margar þjóðir til árangurs ríkisins í baráttunni við veiruna, sem styðst við smitrakningu og einangrun smitaðra. Síðan þá hefur smitum farið ört fjölgandi og voru t.a.m. staðfest rúmlega 1400 tilfelli þann 20. apríl. Síðan þá hafa smitin verið að jafnaði á bilinu 600 til 1100 á dag.
Þarlend heilbrigðisyfirvöld segja að flest hinna smituðu hafi fengið væg einkenni en að um 30 prósent þurfi aðhlynningu vegna aldurs eða undirliggjandi sjúkdóma. Stefnt er að því að yfirstandandi samkomubanni í Singapúr verði aflétt um næstu mánaðamót. Þrátt fyrir að ýmsar verslanir séu farnar að opna aftur var þorra þeirra lokað, Singapúrum gert að halda sig heima og takmarka búðarferðir sínar við kaup á nauðsynjavörum.