Veðurstofan gerir ráð fyrir fremur vætusömu veðri í dag og á morgun á vestanverðu landinu og sé líklegt að gróðurinn sé að bíða eftir vætunni til að taka vaxtarkipp. Búist er við vestan fimm til þrettán metra á sekúndu í dag, en þurrt að kalla á suðaustantil.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að Norðurlandið sleppi ekki alveg við úrkomu en þar verði svalara og ekki útilokað að hluti úrkomunar þar verði slyddukenndari.
„Er hún einkum bundin við daginn i dag því á morgun verður að mestu þurrt fyrir norðan. Hitinn gæti náð 12 til 14 stigum þar sem best lætur á Suðausturlandi á meðan norðaustur- og austurland fá 1 til 5 stiga hita að deginum.
Svo er útlit fyrir svala daga fram á sunnudag en þá fer að hlýna og framan af næstu viku er útlitið ágætt hvað hita varðar og norðanvert landið ætti að sjá til sólar að auki.“
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Vestlæg átt, 3-10 m/s og rigning eða súld með köflum og hiti 5 til 12 stig, hlýjast á SA-landi, en þurrt að kalla NA-til og hiti 0 til 5 stig þar.
Á föstudag: Norðlæg átt, 5-10 m/s og dálítil væta S-lands framan af degi, stöku él nyrst, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 8 stig, mildast sunnanlands.
Á laugardag: Norðanstrekkingur og él fyrir norðan, einkum NA-lands, en annars mun hægari og léttskýjað. Hiti 1 til 10 stig, mildast syðst.
Á sunnudag: Austan og síðar suðaustan strekkingur og bjart með köflum, en líku á smá vætu syðst. Heldur hlýnandi veður.
Á mánudag: Suðaustanátt og rigningu með köflum S-lands, en þurrt fyrir norðan. Hiti víða 5 til 10 stig.
Á þriðjudag: Útlit fyrir suðlæga átt með vætu en þurrt og bjart veður fyrir norðan. Milt veður.