Níu eru nú í öndunarvél hér á landi vegna kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, sá yngsti á fertugsaldri. Þetta kemur fram í kvöldfréttum RÚV.
Fjörutíu og fjórir liggja á sjúkrahúsum vegna sjúkdómsins og þar af tólf á gjörgæslu.
Í gær var sjúklingur sem hafði legið á gjörgæsludeild fluttur yfir á almenna deild í fyrsta skipti frá því að faraldurinn hófst. Sjúklingurinn var sá fyrsti sem lenti í öndunarvél vegna veikindanna.
Tveir hafa náðst úr öndunarvél frá því að faraldurinn hófst en alls hafa þrjátíu útskrifast af spítalanum sem höfðu legið inni vegna COVID-19. Fjórir hafa látist hér á landi en aðeins einn þeirra hafði verið tengdur við öndunarvél.