Orka Holding hefur fest kaup á öllum hlutabréfum Kredia Group Ltd. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Orku Holding að félagið ætli sér að byggja upp annars konar viðskiptamódel en hefur verið hjá því undanfarin ár.
Orka stefnir á útgáfu alþjóðlegra greiðslukorta með betri virkni og minni tilkostnað en aðrir útgefendur korta bjóða upp á almennt. Þá mun Orka starfa í fjórum löndum til að byrja með en ætlað er að bjóða þjónustu fyrirtækisins um alla Evrópu.
„Hér á Íslandi munum við starfa undir vörumerkinu NúNú og bjóða upp á hagkvæma fjármögnun á sanngjarnan, einfaldan og þægilegan hátt. Fljótlega verður hægt að skrá sig fyrir kortum og munum við hefja afhendingar í júní,“ segir Leifur Haraldsson, forsvarsmaður og einn eigenda Orku Holding, um fyrirætlanir félagsins á íslenskum markaði.
Leifur var einn stofnenda Kredia Group Ltd. Á sínum tíma en hann sagði skilið við félagið í árslok 2013. Hann segist því þekkja ágætlega til fyrirtækisins en byggja eigi á öðru viðskiptamódeli héðan af.
„Undanfarin ár hefur viðskiptamódel Kredia Group Ltd. verið á skjön við flest okkar samfélagslegu gildi, hins vegar er viðskiptavinahópur Kredia Group mjög stór og hefur töluverða reynslu af því að nýta sér fjártækni í skammtímafjármögnun. Það er áhugavert fyrir fyrirtæki eins og Orka og NúNú sem einblína á fjártækni og smellpassar því fyrir plön okkar um útgáfu kreditkorta og einfalda og þægilega fjártækniþjónustu fyrir einstaklinga,“ segir Leifur.