Tíundi hver vinnufær Bandaríkjamaður hefur misst vinnuna síðan stjórnvöld þar í landi fóru í víðtækar aðgerðir til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar. Alls hafa 16,8 milljónir manna sótt um atvinnuleysisbætur á síðustu þremur vikum, samkvæmt tölum Vinnumálaráðuneytisins í Washington.
Fleiri hafa ekki verið atvinnulausir í Bandaríkjunum síðan á dögum kreppunnar miklu fyrir um 90 árum. Talið er að atvinnuleysi í apríl kunni að ná 15 prósentum vinnufærra manna.
Óttast er að atvinnulausir kunni að vera enn fleiri í raun því margir sem vilja skrá sig á atvinnuleysisskrá hafa átt í erfiðleikum með að ná í gegn í síma eða skrá sig á vefnum. Í Flórída hafa yfirvöld byrjað að úthluta skráningarformum á pappír af því að skráningarsíður á vefnum hafa kiknað undan álaginu.
„Þetta er ekki niðursveifla; þetta er Kreppan mikla II,“ sagði Chris Rupkey yfirhagfræðingur MUFG bankans í bréfi til viðskiptavina sinna.
Mörgum hefur reynst erfitt að fá atvinnuleysisbætur útborgaðar þrátt fyrir að komast á skrá. Í sumum borgum Bandaríkjanna má þúsundir manna í biðröð eftir ókeypis mat, meðal annars í Orlando, San Diego, Pittsburg og Cleveland.
Bandaríkin eru það land í heiminum sem er með flest staðfest smit, eða 430.000, sem er nærri þriðjungur smita á heimsvísu. Þau eru nú farin yfir 1,5 milljónir.
Yfirvöld í New York fylki tilkynntu í dag um 799 dauðsföll úr Covid-19 sjúkdómnum á einum sólarhring. Talan heldur áfram að hækka. Fleiri en 7.000 manns hafa látið lífið úr sjúkdómnum í fylkinu eða næstum helmingur þeirra 15.000 manna sem hafa látið lífið úr honum í Bandaríkjunum öllum.