Nú fer að líða að því að Eurovision-kvikmynd Will Ferrell komi út á Netflix en frumsýningunni var frestað um tíma vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Eins og margir vita var Eurovision-myndin að stórum hluta tekin upp hér á landi.
Í gær kom út fyrsta lagið úr kvikmyndinni og ber það nafnið Volcano Man eða Eldfjallamaðurinn og nafn myndarinnar virðist vera Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.
Surprise! The first song from the #eurovision Netflix film is out RIGHT NOW. And it is a BOP!!!
— Ding-a-Dong Podcast (@dingadongcast) May 14, 2020
https://t.co/WcXFaazPIB
Aðalleikarar myndarinnar eru Will Ferrell og Rachel McAdams og leika þau Íslendingana Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir sem keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision. Pierce Brosnan leikur föður Ferrell sem heitir Erick Erickssong og söngkonan Demi Lovato kemur einnig fram.
Nokkrir íslenskir leikarar fara einnig með hlutverk, þar á meðal Jóhannes Haukur Jóhannesson, Björn Stefánsson, Hannes Óli Ágústsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Björn Hlynur Haraldsson og Ólafur Darri Ólafsson.
Hér að neðan má heyra lagið sjálft.
Will Ferrell kom fram í sjónvarpsþættinum Okkar 12 stig á RÚV í gær og tilkynnti um að Ítalía hefði fengið flest atkvæði hjá Íslendingum í þættinum.
„Við nutum þess að taka upp á Íslandi. Þið eruð yndisleg. Fallegt land, fallegt fólk. Og guð minn góður hvað við elskuðum Húsavík,“ sagði Ferrell meðal annars.

Í október síðastliðnum mætti Ferrell með hátt í 200 manns með sér og lagði kvikmyndatökuliðið Húsavík undir sig, við mikla ánægju bæjarbúa.
Húsvíkingar fengu aukahlutverk í myndinni, öll borð á veitingastöðunum voru bókuð og pollabuxur og annar útvistarfatnaður seldist upp.
„Um einstakan atburð er að ræða sem allar líkur eru á að hafi mikil og jákvæð áhrif á ferðamennsku inn á svæðið til næstu ára ef vel tekst til,“ sagði sveitastjórinn Kristján Þór Magnússon kátur í tilkynningu til sveitunga sinna fyrir tökurnar.
Tónlistin í myndinni var í höndum tónskáldsins Atla Örvarssonar og var hún leikin af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og tekin upp í Hofi á Akureyri í mars.