Bayern München náði aftur fjögurra stiga forskoti á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta þegar liðið vann nokkuð þægilegan 2-0 útisigur á Union Berlín í 26. umferð í dag.
Bayern er með 58 stig, fjórum stigum á undan Dortmund og sex stigum á undan Borussia Mönchengladbach sem er í 3. sæti. Union Berlín er í 12. sæti með 30 stig.
Pólska markavélin Robert Lewandowski kom Bayern yfir í dag á 40. mínútu með marki úr víti, eftir brot Neven Subotic á Leon Goretzka. Benjamin Pavard skoraði seinna markið með skalla eftir hornspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok.
Lewandowski er langmarkahæstur í deildinni með 26 mörk en hann hefur nú skorað alls 40 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni, líkt og á hverri af síðustu fjórum leiktíðum sínum með Bayern.
Robert Lewandowski has now scored 40 goals across all competitions in each of his last five seasons for Bayern Munich.
— Squawka Football (@Squawka) May 17, 2020
A goal scoring machine. pic.twitter.com/LZ9Empmnw3
Fyrr í dag gerðu Köln og Mainz 2-2 jafntefli. Köln er í 10. sæti en Mainz í 15. sæti, nú jafnt Augsburg að stigum en með verri markatölu.