Tekin hefur verið ákvörðun um það að skilgreina skíðasvæði í Ölpunum sem svæði með mikla smitáhættu vegna kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Frá þessu var greint á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis sem hófst klukkan 14 í dag.
Svæðin eru skilgreind sem hættusvæði frá og með 29. febrúar síðastliðnum en að því er fram kemur á vef landlæknis eru landsvæðin eftirfarandi:
Ítalía
- Allt landið
Austurríki
- Ischgl
- Vorarlberg
- Tirol
- Salzburg
- Kärnten
Sviss
- Valais
- Bernese Oberland
- Ticino
- Graubünden
Þýskaland
- Skíðasvæði í Suður-Bæjaralandi
Frakkland
- Provence-Alpes-Côte d'Azur
- Auvergne-Rhône-Alpes
Slóvenía
- Öll skíðasvæði
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á fundinum að þessi ákvörðun byggi á aukaupplýsingum sem yfirvöld hafi verið að fá yfir helgina.
Vísaði hann í fregnir frá Norðurlöndunum þar sem mjög stór hluti af þeim sýkingum sem eru að greinast þar eru að koma frá skíðasvæðum í Ölpunum og þá ekki bara frá Norður-Ítalíu.
Því væri almenningur nú hvattur til þess að fara ekki á skíðasvæði í Ölpunum að nauðsynjalausu og ef fólk hefur verið þar þá eigi það að fara í sóttkví frá heimkomudegi.
Verið væri að miða við 29. febrúar og ákvörðunin gildir frá þeim degi. Tók Þórólfur dæmi um að ef einhver hefði komið heim fyrir tíu dögum frá nú skilgreindum áhættusvæðum en verið einkennalaus þá eigi viðkomandi að fara í sóttkví í fjóra daga.
Fréttin hefur verið uppfærð.