Innlent

Hefja árveknisátak gegn falsfréttum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Elfa Ýr Gylfadóttir er framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.
Elfa Ýr Gylfadóttir er framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar. Vísir/Egill

Fjölmiðlanefnd hefur hrint af stað árveknisátaki gegn falsfréttum með stuðningi Facebook. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri nefndarinnar segir falsfréttir áberandi á samfélagsmiðlum og hafi jafnvel valdið miklum skaða.

Átakið gegn falsfréttum er unnið í samstarfi við Vísindavefinn og Landlæknisembættið og hefur ný vefsíða verið opnuð. Framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar segir afar mikilvæg að fólk sýni árvekni á samfélagsmiðlum.

„Það er búið að vera mjög mikið af falsfréttum í gangi undanfarna mánuði við sjáum það í rannsóknum erlendis og það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé að koma af falsfréttum á samfélagsmiðla hér á landi. Þá hefur verið varað við netsvindli í tengslum við kórónuveiruna,“ segir Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.

Hún segir að dæmin sýni að falsfréttir hafi jafnvel valdið gríðarlegum skaða eins og gerðist þegar hópur fólks lést eftir að hafa drukkið Metanól sem það hafði upplýsingar um að kæmi í veg fyrir Covid-19. Þá hafi fólk orðið fyrir fjárhagslegum skaða hér á landi vegna netsvindls.

Elfa segir að falsfréttir hafi einkum birst á samfélagsmiðlum.

„Ég verð að segja það að íslenskir fjölmiðlar hafa almennt staðið sig frábærlega á þessum tímum kórónuveirunnar. Það sem við erum fyrst og fremst að sjá eru falsfréttir og rangfærslur sem eru að berast á netinu og þá aðallega á Facebook, Youtube og samfélagsmiðlum yfir höfuð,“ segir Elfa.

Elfa er afar ánægð með stuðninginn frá Facebook og fer átakið endurgjaldslaust fram þar og á Instagram næstu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×