Tveir eru innlagðir á Landspítala vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Annar þeirra er á gjörgæslu vegna veikindanna.
Þetta staðfestir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, í samtali við Vísi. Ekki fengust frekari upplýsingar um líðan viðkomandi að svo stöddu.
Alls eru 138 smit staðfest hér á landi og rúmlega þúsund manns í sóttkví.
Fyrr í vikunni var greint frá því að maður hafði verið lagður inn á Landspítalann, verulega veikur vegna kórónuveirunnar. Um var að ræða eldri mann sem hafi verið með afar háan hita.