Arsenal hefur gengið frá samningi við norska táninginn George Lewis eftir að hann var til reynslu hjá félaginu um tveggja vikna skeið í mars.
Lewis, sem er 19 ára, hefur verið án félags en spilaði síðast með Fram Larvik í norsku C-deildinni. Samkvæmt enskum miðlum mun hann koma inn í U23-lið Arsenal en gæti einnig æft með aðalliðinu, eins og hann gerði þrjá síðustu dagana þegar hann var hjá félaginu í mars.
„Ég get staðfest þetta. Ég er búinn að fá þau skilaboð að hann hafi skrifað undir hjá Arsenal,“ sagði Jostein Jensen, íþróttastjóri hjá Fram Larvik, við VG í Noregi. „Við óskum honum góðs gengis,“ sagði Jensen.
Lewis er fæddur í Rúanda í Afríku en hóf feril sinn með ungmennaliði Tromsö í Noregi, fór þaðan til Tromsdalen og loks Fram Larvik.