Íslandsmeistarar KR í fótbolta hafa ekki verið sannfærandi í þeim tveim æfingaleikjum sem liðið hefur spilað eftir kórónuveiruhléið. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir að hans menn þurfi að komast aftur upp á tærnar.
KR spilaði gegn Stjörnunni síðasta miðvikudag þar sem liðið tapaði sannfærandi 3-0 og í gærkvöldi gerði liðið 1-1 jafntefli við Lengjudeildarlið Keflavíkur en liðið á titil að verja í sumar.
„Við erum ekki búnir að líta vel út í þessum fyrstu tveimur leikjum. Stjörnuleikurinn fannst mér allt í lagi, ágætis ryðmi þó að við höfum tapað en í gær gegn Keflavík þá vorum við ágætir til að byrja með en svo fjaraði undan þessu. Við vorum bara slakir,“ sagði Rúnar og bætti við:
„Keflvíkingarnir voru bara mjög góðir. Þeir eiga hrós skilið fyrir það en við þurfum aðeins að gíra okkur upp og gera betur ef við ætlum að geta eitthvað í sumar.“