Einherji hefur styrkt knattspyrnulið sitt fyrir átökin í 3.deildinni í sumar en Englendingarnir Ben King og Recoe Martin eru gengnir til liðs við félagið.
Recoe Martin kemur frá enska C-deildarliðinu MK Dons en fyrir ári síðan var hann orðaður við ensk úrvalsdeildarlið á borð við Southampton, Newcastle og Norwich.
Í grein enska fjölmiðilsins Mirror fyrir rúmu ári síðan er Martin sagður vera næsti Dele Alli en greinin er skrifuð í kjölfar þess að Martin gerði fimm mörk á 17 mínútum í leik með unglingaliði MK Dons gegn Leyton Orient. Er Alli uppalinn hjá MK Dons og sló svo í gegn með enska stórliðinu Tottenham.
Í þessari sömu grein Mirror segir frá áhuga úrvalsdeildarliðanna sem nefnd eru fyrr í fréttinni en nú rúmu ári síðar mun Martin spila á Vopnafirði og binda Einherjamenn miklar vonir við kappann.
Einherji hefur samið við tvo unga Breta
— Ungmennafélagið Einherji (@Umf_Einherji) June 5, 2020
Ben King frá Carson-Newman Hann getur spilað flestar stöður hægra megin á vellinum og mun styrkja liðið mikið
Recoe Martin frá MK Dons. Recoe getur leyst allar stöður í fremstu röð og er mikill styrkur fyrir félagið pic.twitter.com/Om79tHaRxg
Fjöldi erlendra leikmanna hefur spilað í neðri deildum Íslands undanfarna áratugi og þar hafa oft verið leikmenn með áhugaverðan bakgrunn.
Snemma á þessari öld gekk Bosníumaður að nafni Almir Cosic í raðir Leiknis Fáskrúðsfjarðar, sem þá lék í 3.deild, en tveimur árum áður hafði enska úrvalsdeildarliðið Newcastle lagt fram kauptilboð upp á eina milljón punda í Cosic. Gerði hann góða hluti á Fáskrúðsfirði áður en hann var fenginn til HK. Lék Cosic yfir 100 leiki hér á landi, flesta í neðri deildum.
Annað dæmi um leikmann sem hefur búið til feril í neðri deildum Íslands eftir að hafa verið spáð miklum frama á stærsta sviði knattspyrnunnar í ensku úrvalsdeildinni er Aaron Spear. Hann þótti einn efnilegasti leikmaður Newcastle á sínum yngri árum en mun leika með Kórdrengjum í 2.deildinni í sumar og á hátt í 100 leiki í Íslandsmóti, flesta í B og C deild.