Þrátt fyrir frábæra innkomu fyrir AGF í kvöld fær Jón Dagur Þorsteinsson ekki að spila til bikarúrslita í danska fótboltanum en lið hans úr leik í undanúrslitum eftir tap gegn AaB, 3-2.
Jón Dagur kom inn á við upphaf seinni hálfleiks en AaB var þá 1-0 yfir. Heimamenn komust í 3-0 snemma í seinni hálfleiknum en AGF minnkaði muninn á 77. mínútu, þegar Bror Blume skoraði en Jón Dagur átti stóran þátt í markinu með laglegri sendingu í aðdragandanum.
Þegar komið var fram á 90. mínútu lagði Jón Dagur svo upp annað mark, fyrir Nicklas Helenius. Mikil spenna var í uppbótartímanum og Jón Dagur fékk líkt og fleiri leikmenn að líta gula spjaldið þegar upp úr sauð í kjölfar tæklingar, en fleiri mörk voru ekki skoruð.
Það verða því AaB og SönderjyskE sem leika til úrslita í keppninni. Eggert Gunnþór Jónsson og Ísak Óli Ólafsson eru leikmenn SönderjyskE, sem vann Horsens fyrr í kvöld.