Veður

Má búast við helli­dembum, hagli og eldingum

Atli Ísleifsson skrifar
Reikna má með bleytu sunnantil.
Reikna má með bleytu sunnantil. Veðurstofan

Loftið á landinu verður óstöðugt þegar lægð sunnan úr höfum gengur á land og því má búast við hellidembum og er möguleiki á því að skúraklakkarnir verði nægilega háreistir til að valda hagli og eldingum.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Er spáð hita víða á bilinu 11 til 17 stig yfir daginn.

„Skammt suður af landinu er 994 mb lægð sem þokast norður og grynnist heldur. Suðaustan 8-13 í fyrstu austantil á landinu, en heldur hægari austlæg átt annarsstaðar. Víða skúrir, en rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum. Eftir hádegi verður lægðin komin upp á land og því breytileg átt, yfirleitt 3-8 m/s.“

Í kvöld verður lægðin svo komin norður fyrir land og snýst í suðvestanátt og styttir upp. Er spáð fremur hægri suðlægri átt á morgun og svipaður hiti yfir daginn. Skýjað með köflum og dálitlar skúrir á víð og dreif, einkum inn til landsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað með köflum og líkur á skúrum síðdegis í flestum landshlutum, einkum inn til landsins. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á föstudag: Austan 3-8, skýjað með köflum og úrkomulítið, en skúrir á norðvestanverðu landinu. Austan 8-13 um kvöldið, og fer að rigna austast á landinu. Hiti 10 til 16 stig.

Á laugardag: Norðaustanátt, 10-18 m/s, en hægari norðaustantil. Dálítil rigning af og til og hiti 8 til 13 stig, en þurrt sunnan- og vestanlands og hiti að 18 stigum.

Á sunnudag: Austan og norðaustan 10-18 m/s. Rigning í flestum landshlutum, jafnvel talsverð rigning suðaustanlands. Hiti frá 8 stigum austast á landinu, en allt að 20 stig á Suðvesturlandi.

Á mánudag: Útlit fyrir ákveðna norðaustanátt. Rigning um norðaustanvert landið, annars úrkomulítið og bjartviðri suðvestantil. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast suðvestantil.

Á þriðjudag: Norðaustanátt og skýjað um austantil á landinu, annars bjart með köflum. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×