Grunur lék á að leikmaður í kvennaliði Selfoss í Pepsi Max deildinni væri með Kórónuveiruna en við sýnatöku kom í ljós að svo væri ekki. Sýnið reyndist neikvætt.
Æfingu Selfoss var frestað í dag og einnig leik í 2. flokki kvenna.
Eftir að leikmaður kvennaliðs Breiðabliks greindist með veiruna eru allir leikmenn liðsins, auk KR-liðsins sem mætti þeim í síðustu umferð, komnar í sóttkví. Fimm leikjum hefur verið frestað vegna þessa, fjórum í Pepsi Max deild kvenna og einum í Lengjudeild kvenna. Það er þessa stundina enn þá eina smitið sem greinst hefur hjá leikmönnum deildarinnar.