Lagið Husavik með Will Ferrell og Molly Sandén, aðallagið úr Eurovision-myndinni sem frumsýnd var á Netflix í gær, er komið í 20. sæti á iTunes listanum í Bretlandi, 56. sæti í Bandaríkjunum og 29. sæti í Ástralíu, aðeins degi eftir að það var gefið út.
Lagið er ástaróður til Húsavíkur og syngja Ferrell og Sandén meðal annars á íslensku: „Vera með þér, í Húsavík við Skjálfanda, í heimabærinn minn“.
Gera má ráð fyrir því að laginu eigi einnig eftir að vegna vel á vinsældarlistum Spotify. Platan kom út samhliða myndinni í gær og þar má einnig finna lagið Eurovision Suite eftir Atla Örvarsson.
Ferrell er ekki einn um að spreyta sig á íslensku í myndinni því Pierce Brosnan og Rachel McAdams fara einnig með línur á íslensku. Þá leikur Demi Lovato söngkonu sem heitir Katiana Lindsdóttir og er frá Keflavík. Hún þátt í Söngvakeppninni á Íslandi með lagið In the Mirror sem einnig má búast við að verði vel tekið af aðdáendum hennar.
Ísland spilar stórt hlutverk í myndinni og er fjöldinn allur af íslenskum leikurum í leikarahópnum. Fimmtán íslenskir leikarar eru skráðir með hlutverk á IMDB-síðu myndarinnar og eru þar nöfn á borð við Jóhannes Hauk, Ólaf Darra, Nínu Dögg, Björn Hlyn og Björn Stefánsson en sá síðastnefndi birti einmitt mynd af sér á Instagram í gær ásamt Pierce Brosnan.
Myndin hefur hlotið misjafna dóma en er ofarlega á vinsældalista Netflix þessa stundina. Myndin er hugarfóstur leikarans Will Ferrell, sem varð ástfanginn af Eurovision þegar hann var í heimsókn hjá skyldmennum eiginkonu sinnar í Svíþjóð.
„Þetta gerðist fyrri tuttugu árum þegar við heimsóttum fjölskyldu eiginkonu minnar í Svíþjóð. Eitt kvöldið sagði frænka hennar „Eigum við að setjast niður og horfa á Eurovision?“ og ég sagði jájá. Við sátum þarna í þrjá heila klukkutíma og horfðum á úrslitakvöld Eurovision á meðan ég missti hökuna í gólfið. Ég trúði ekki eigin augum, þetta var það ruglaðasta sem ég hef séð,“ sagði Ferrell um sína upplifun af keppninni.
Hér að neðan má sjá myndband við lagið.