Þegar eitt lið þarf að bíða heima í sóttkví í tvær vikur á meðan að önnur geta æft og spilað samkvæmt áætlun, er þá ekki búið að gjaldfella Íslandsmótið í fótbolta 2020? Talsmenn liða sem orðið hafa fyrir barðinu á afleiðingum kórónuveirufaraldursins bera sig ágætlega þó að vandinn sé augljós.
Þegar þetta er skrifað er stór hluti leikmannahópa Breiðabliks, KR og Fylkis í kvennaflokki, og karlaliðs Stjörnunnar, í tveggja vikna sóttkví. Kórónuveirusmit greindist fyrst hjá leikmanni kvennaliðs Breiðabliks en svo einnig hjá leikmanni karlaliðs Stjörnunnar og öðrum hjá kvennaliði Fylkis.
Þessar tvær vikur sem liðin eru í sóttkví þurfa leikmenn að æfa einir, með takmarkaða aðstöðu, og liðin þurfa svo í framhaldinu að leika stífar en önnur lið til að koma sínum leikjum fyrir á tímabilinu. Karlalið Stjörnunnar átti til að mynda að spila þrjá leiki á næstu tveimur vikum en þeim leikjum þarf að koma fyrir síðar í sumar, eða í haust.
Hvaða áhrif þetta hefur á lokaniðurstöðuna í Pepsi Max-deildum kvenna og karla, ef á annað borð tekst að ljúka tímabilinu 2020, er ómögulegt að segja til um. Augljóst er hins vegar að liðin sitja ekki við sama borð þegar sum þeirra geta æft en önnur ekki.
Þarf að gera skaðann sem minnstan fyrir alla
„Það þarf náttúrulega að ljúka mótinu á einhvern hátt. Það þarf að finna eins sanngjarna niðurstöðu og hægt er, og við munum náttúrulega bara vinna það með KSÍ. Það er ekki hægt að flauta mótið af í tvær vikur – hvað ætla menn að gera ef það kemur svo annað smit eftir það? Það þarf að reyna að gera skaðann sem minnstan fyrir alla,“ segir Sigurður Sveinn Þórðarson, skrifstofustjóri Stjörnunnar.
Sigurður sagði í hádeginu í dag alla leikmenn meistaraflokka og 2. flokka Stjörnunnar hafa verið senda í skimun eftir að upp komst um smitið á föstudag, og að hingað til hefðu allar niðurstöður verið neikvæðar.

Sjáum ekki hópinn þegar þörfin er mikil til að byggja hann upp
Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari kvennaliðs KR, þarf ekki að sitja í sóttkví frekar en annað fólk í hans teymi en 13 leikmenn liðsins eru hins vegar í sóttkví eftir að hafa leikið við smitaðan einstakling Breiðabliks. KR hefur tapað fyrstu þremur leikjum sínum í sumar og losna leikmenn ekki úr sóttkví fyrr en 7. júlí, og þurfa þá að gíra sig fljótt upp fyrir bikarleik við Tindastól þremur dögum síðar.
KR er á botni Pepsi Max-deildarinnar og spurning hversu langt verði í næstu lið þegar sóttkví lýkur.
„Þetta er auðvitað ekki ákjósanleg staða en maður sér svo sem ekki aðrar lausnir. Það er erfitt að ætla að gera algjört hlé á mótinu,“ segir Jóhannes Karl.
„Þetta var eitthvað sem var alveg í kortunum fyrir mót að gæti komið upp og þyrfti að taka á, en þetta er að sjálfsögðu hrikaleg staða að lenda í. Núna sjáum við ekki hópinn í tvær vikur, eftir að hafa komið úr mjög erfiðu prógrammi og sérstaklega erfiðum leik sem við hefðum haft mikla þörf til að byggja hópinn upp eftir. En maður sér svo sem ekki að það sé hægt að gera þetta á annan hátt. Ef að maður ætlar á annað borð að spila mótið þá gildir bara „áfram gakk“,“ segir Jóhannes Karl.
Hann er ekki á því að aðrar reglur eigi að gilda um Íslandsmótið í ár, varðandi til dæmis það hvort og hve mörg lið falla úr deildum:
„Ef að við spilum mótið þá verður það bara að telja. Það er ekki undan því komist. Félögin leggja mikið í þetta, líka þau sem eru í neðri deildum, svo það er rosalega erfitt að ætla að setja fram nýjar reglur þegar farið er af stað.“