Stjórnendur samfélagsmiðlarisans Facebook eru nú sagðir íhuga möguleikann að bann stjórnmálaauglýsingar á miðlinum síðustu dagana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember. Facebook hefur sætt gagnrýni úr ýmsum áttum fyrir stefnu sína gagnvart upplýsingafalsi.
Ekkert hefur verið ákveðið með mögulegt auglýsingabann sem er enn til umræðu innanhúss hjá Facebook, að sögn Bloomberg-fréttastofunnar. Slíkt bann er talið geta dregið úr misvísandi fullyrðingum um kosningarnar síðustu dagana fyrir kjördag. Áhyggjur eru aftur á móti innan Facebook af því að bann gæti komið niður á hópum sem reyna að fá fólk til að kjósa og stjórnmálamönnum sem vilja bregðast við fjölmiðlaumfjöllun eða nýjum upplýsingum.
Gagnrýni á stefnu Facebook hefur komið úr ýmsum áttum undanfarin ár. Fyrirtækið hefur fengið bágt fyrir að leyfa miðlinum að verða að gróðrarstíu lyga og samsæriskenninga fyrir þýðingarmiklar kosningar í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrir fjórum árum. Facebook undanskilur einnig auglýsingar stjórnmálamanna eða framboðs þeirra staðreyndavöktun.
Á sama tíma hafa hægrimenn í Bandaríkjunum sakað samfélagsmiðlafyrirtæki um að „þagga niður“ í íhaldsmönnum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur meðal annars gripið til aðgerða til þess að ná sér niður á fyrirtækjunum vegna þess að Twitter takmarkaði aðgang að umdeildum tístum hans. Hann hefur einnig hótað að láta loka samfélagsmiðlum.
Hundruð auglýsenda sniðganga nú Facebook til þess að mótmæla stefnu þess gagnvart hatursorðræðu og upplýsingafalsi á miðlinum.