Heildarafkoma ríkissjóðs var neikvæð um 39 milljarða króna í fyrra sem er um 24 milljörðum lakari niðurstaða en endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir. Þetta kemur fram í endurskoðuðum ríkisreikningi fyrir árið 2019 sem Fjársýslan birti á dögunum og Hagsjá Landsbankans fjallar um í dag.
Fjárlög ársins 2019 gerðu ráð fyrir að heildarafkoma yrði jákvæð um 29 milljarða og því hefur oðið til neikvæður munur upp á tæpa 70 milljarða miðað við fjárlög.
Landsbankinn segir að greinilega megi sjá sjá á ríkisreikningi ársins 2019 að tekið var að þyngja á í hagkerfinu. Bankinn bendir á að árin tvö á undan hafi lokaniðurstaða ríkisreiknings verið í góðu samræmi við samþykkt fjárlög en í fyrra var róðurinn greinilega orðinn þyngri.
Þá segir að erfitt sé að gera samskonar samanburð fyrir árin á undan þar sem stöðugleikaframlög og álíka óreglulegir þættir höfðu mikil áhrif á lokauppgjör ríkissjóðs, segir í Hagsjá Landsbankans sem bætir við að heildarskuldir ríkissjóða eins og þær birtast í efnahagsreikningi hafi um síðustu áramót verið um 1.920 milljarðar og höfðu þá hækkað um tuttugu prósent milli ára að nafnvirði.