Veður

Lægð yfir landinu um verslunarmannahelgina

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Veðurlíkön evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (t.v.) og bandarísku GFS spárinnar (t.h.) eru nokkuð samstíga um spána næstu helgi.
Veðurlíkön evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (t.v.) og bandarísku GFS spárinnar (t.h.) eru nokkuð samstíga um spána næstu helgi. Skjáskot/Blika

Lægð verður yfir landinu um verslunarmannahelgina gangi spár eftir. Lítil bylgja frá Ameríku mun berast til austurs og með henni sumarhlýtt loft en þegar hún nálgast landið mun henni fylgja sumarlægð samkvæmt spá Veðurvaktarinnar.

Spálíkön evrópsku reiknimiðstöðvarinnar og bandarísku GFS spárinnar eru nokkuð samstíga og mun lægðin fara, samkvæmt spánni, yfir landið seint á fimmtudag og snemma á föstudag með hvassri austanátt og rigningu á mest öllu landinu.

Henni mun þó fylgja nokkuð hlýtt loft á Norður- og Austurlandi á laugardag og jafnvel á sunnudag en hins vegar gæti blásið verulega.

Haraldur Eiríksson, vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir spár Veðurstofunnar benda til þess að rigning verði um næstu helgi. Þó sé almennt of snemmt að spá fyrir um veðrið um verslunarmannahelgina en spáin sé ákveðin í þessa átt.

„Okkar spá nær fram á laugardaginn og þetta lítur svona út að þessi lægð sé að koma úr suðri og byrji að rigna kannski á fimmtudagskvöldið sunnanlands og svo spáð rigningu á föstudag á öllu landinu. Þetta er inni í spánum en það verður svo bara að skýrast þegar nær dregur nákvæmlega hvernig veðrið verður. Það er mjög líklegt að þetta verði lendingin, að það verði lægð hérna yfir um helgina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×