Eftir fimm leiki í röð án sigurs vann Breiðablik langþráðan sigur á ÍA, 5-3, á Kópavogsvelli í gær. Blikar voru 4-1 yfir í hálfleik.
Með sigrinum komst Breiðablik upp í 3. sæti Pepsi Max-deildar karla. ÍA er í 8. sætinu. Skagamenn hafa tapað þremur leikjum í röð og fengið á sig þrettán mörk í þeim.
Alexander Helgi Sigurðarson kom Blikum á bragðið á 11. mínútu. Sex mínútum síðar skoraði Kristinn Steindórsson annað mark heimamanna eftir frábæran undirbúning Gísla Eyjólfssonar sem var í fyrsta sinn í byrjunarliði Breiðabliks síðan gegn KA 5. júlí.
Thomas Mikkelsen kom Blikum í 3-0 á 36. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar og þremur mínútum síðar skoraði Kristinn fjórða mark Kópavogsliðsins. Hann hefur skorað sjö mörk í átta leikjum í deild og bikar í sumar.
Á 43. mínútu braut Kwame Quee á Viktori Jónssyni innan vítateigs og Einar Ingi Jóhannsson benti á punktinn. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók spyrnuna og skoraði af öryggi.
Mikið gekk á í upphafi seinni hálfleiks. Á 48. mínútu minnkaði Hlynur Sævar Jónsson muninn í 4-2 þegar hann skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu Tryggva.
Tveimur mínútum síðar braut Hlynur á Alexander innan vítateigs og aftur benti Einar Ingi á punktinn. Mikkelsen skoraði úr spyrnunni, sitt níunda deildarmark í sumar.
Á 53. mínútu skoraði Viktor og minnkaði muninn í 5-3 eftir skelfileg mistök Antons Ara Einarssonar í marki Breiðabliks.
Fleiri urðu mörkin ekki en þau átta sem voru skoruð í leiknum í gær má sjá hér fyrir neðan.