Miklar breytingar voru á sölu nýrra fólksbíla hérlendis á síðasta ári og dróst heildarsalan á nýjum fólksbílum saman um 34,8% frá árinu 2018. Í heildina seldust 11.728 nýir fólksbílar árið 2019 samanborið við 17.976 árið áður samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu.
Hlutfall vistvænna bíla hélt áfram að aukast á árinu sem leið og var hlutfall þeirra 27,5% af heildarsölu. Í flokki vistvænna bíla eru rafbílar, metanbílar og tvinnbílar. Þar af voru tengiltvinnbílar fremstir í flokki með um 10,3% af sölu nýrra bíla, tvinnbílar með um 8,9% og rafmagnsbílar um 7,8%.
Hlutfall vistvænna bíla með því hæsta í heiminum
„Eru þetta hlutfallstölur sem eru fáheyrðar annarsstaðar í heiminum fyrir utan Noreg og er líklegt að Ísland verði áfram í fararbroddi þar sem horft er til framlengingar á ívilnunum vegna vörugjalda við kaup á slíkum bílum,“ segir í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.
Á sama tíma hækkar meðalaldur bílaflotans hér á landi og er nú 12,3 ár á meðan meðalaldurinn í Evrópusambandinu er sagður vera 10,8 ár.
Bílaleigur keyptu yfir 40% nýrra bíla
„Af þeim 11.728 sem seldust á árinu þá keyptu bílaleigur 4.866 bíla eða 41,5%. Hlutfallið er í takti við flest ár frá 2009 þegar bílaleiguflotinn fór stækkandi vegna fjölgunar ferðamanna en bílaleigur hafa að meðaltali keypt um 42,6% allra nýrra bíla síðan þá.“
Þrátt fyrir samdrátt er salan í fyrra sögð vera sambærileg ársmeðaltali ef bílasala er skoðuð í sögulegu samhengi. Frá síðustu aldamótum hafa um 11.400 fólksbílar selst að meðaltali á ári og salan í fyrra því rétt yfir meðaltalinu.
Toyota var söluhæsta vörumerkið á árinu með 16,8% hlutfall sölunnar en þar á eftir fylgdu KIA með 12,6% og Hyundai með 6,8%.