Ríflega milljón manns söfnuðust saman á Times-torgi í New York á miðnætti og fylgdust með kristalskúlunni frægu falla. Kúlan í ár vegur um fimm tonn, á henni eru 2700 kristalsþríhyrningar og þrjú þúsund ljós. Eitt og hálft tonn af glitpappír var látið falla yfir gesti.
Hátíðarhöldin voru með öðrum hætti í Key West á Flórída þar sem um 300 pulsuhundar fóru í árlega skrúðgöngu ásamt eigendum sínum.
Mikil flugeldasýning var yfir óperuhúsinu í Sydney. Borginni var veitt undanþága frá flugeldabanni í landinu vegna eldhættu nú þegar skógareldar geisa í landinu. Um 250 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að hætt yrði við sýninguna sem hlaut ekki brautargengi hjá yfirvöldum.
Í Sjanghæ í Kína var tvö þúsund drónum flogið á loft. Þeir mynduðu flugelda og ýmis önnur form áður en talið var niður í nýtt ár.
Drónar komu í stað flugelda í Sjanghæ
