Oleksiy Honcharuk, forsætisráðherra Úkraínu, hefur boðist til að segja af sér embætti eftir að myndband náðist af honum þar sem hann gagnrýndi forsetann Volodymyr Zelenskiy. Ekki liggur fyrir hvort afsögnin verði tekin til greina.
Hinn 35 ára Honcharuk varð yngsti maðurinn í sögunni til að leiða ríkisstjórn Úkraínu þegar hann tók við embætti forsætisráðherra í ágúst síðastliðinn.
Á myndbandinu er Honcharuk sagður hafa sagt að hann efaðist um getu forsetans Zelenskiy til að leiða efnahagslíf landsins.
Í færslu á Facebook segir Honcharuk að hann hafi tekið við embættinu til að framfylgja stefnu forsetans. „Í mínum huga er [forsetinn] fyrirmynd gegnsæis og velsæmis.“ Hann segist hins vegar hafa undirritað afsagnarbréfið til að tryggja að virðing og traust hans í garð forsetans sé hafið yfir allan vafa.
Skrifstofa Zelenskiy hefur staðfest móttöku bréfsins, en ekki er ljóst á þessari stundu hvort afsögnin verði tekin til greina og lögð fyrir þingið.