Kristján Andrésson stýrði Svíum til sigurs á Pólverjum, 26-28, í F-riðli Evrópumótsins í kvöld.
Sænska liðið er því komið í milliriðil II þar sem það mætir m.a. Íslandi. Svíar enduðu í 2. sæti F-riðils og fara stigalausir í milliriðil.
Kim Ekdahl du Rietz, Daniel Pattersson, Andreas Nilsson og Jim Gottfridsson skoruðu fimm mörk hver fyrir Svíþjóð í leiknum í kvöld.
Noregur sigraði Portúgal, 28-34, í úrslitaleik um efsta sætið í D-riðli. Norðmenn unnu alla sína leiki í riðlinum og fara með tvö stig í milliriðil II.
Allavega þrjár Norðurlandaþjóðir verða í milliriðli II og Danir gætu bæst í þann hóp annað kvöld. Í milliriðli II verða Noregur, Ísland, Slóvenía, Portúgal, Svíþjóð og annað hvort Danmörk eða Ungverjaland.
Þá tryggðu Tékkar sér sæti í milliriðli I með sigri á Úkraínumönnum, 19-23. Tékkland endaði í 2. sæti B-riðils með fjögur stig, tveimur stigum minna en Austurríki.
