Ísland vann ellefu marka sigur á Rússlandi, 34-23, í öðrum leik sínum í E-riðli Evrópumótsins 2020 í handbolta í dag. Þetta er jöfnun á stærsta sigri Íslands á EM frá upphafi.
Á EM í Svíþjóð 2002 unnu Íslendingar ellefu marka sigur á Svisslendingum, 33-22, í lokaleik sínum í C-riðli.
Það var stærsti sigur Íslands á EM í 18 ár, eða þar til íslenska liðið jafnaði það með sigrinum á Rússlandi í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk í stórsigrinum á Sviss fyrir 18 árum. Hann er enn í íslenska liðinu en fékk hvíld í leiknum gegn Rússlandi í dag.
Guðmundur Guðmundsson hefur stýrt íslenska landsliðinu til stærstu sigra þess á EM. Hann var þjálfari Íslands á EM 2002 sem var jafnframt hans fyrsta stórmót sem þjálfari landsliðsins. Guðmundur er núna á sínu fimmta Evrópumóti sem þjálfari Íslendinga.
Ísland hefur þrisvar sinnum unnið átta marka sigur á EM; á Júgóslavíu 2002, Ungverjalandi 2008 og Rússlandi 2010. Guðmundur var þjálfari íslenska liðsins 2002 og 2010 en Alfreð Gíslason 2008.
Ísland er komið áfram í milliriðil II á EM 2020 en þarf að vinna Ungverjaland á miðvikudaginn til að taka með sér tvö stig.
+11 Ísland 34-23 Rússland, EM 2020
+11 Ísland 33-22 Sviss, EM 2002
+8 Ísland 34-26 Júgóslavía, EM 2002
+8 Ísland 36-28 Ungverjaland, EM 2008
+8 Ísland 38-30 Rússland, EM 2010
+6 Ísland 31-25 Slóvenía, EM 2002
+6 Ísland 28-22 Slóvakía, EM 2008
+6 Ísland 27-21 Ungverjaland, EM 2012
+6 Ísland 33-27 Austurríki, EM 2014