Handbolti

Björgvin Páll: Þeir voru frosnir í sókninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik þegar Ísland kjöldró Rússland, 34-23, í öðrum leik sínum á EM 2020 í handbolta.

„Þetta var frábært á öllum vígstöðvum. Allir sem komu inn á, eins og Viktor Gísli [Hallgrímsson] og Viggó [Kristjánsson] lokuðu sínum hlutverkum frábærlega,“ sagði Björgvin við Vísi eftir leik.

„Þetta var sigur liðsheildarinnar og við höfum spilað tvo frábæra leiki.“

Íslenska liðið er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina á EM.

„Við erum með unga og graða gæja í bland við þá gömlu sem geta miðlað af reynslunni. Við erum að spila frábærlega og þurfum að byggja á þessu,“ sagði Björgvin.

„Við erum búnir að leggja ógeðslega mikið inn, bæði á mynbandsfundum og æfingum og það skilar sér.“

Björgvin varði 13 skot, eða 38% þeirra skot sem hann fékk á sig.

„Þetta var geggjaður leikur á alla vegu. Þeir voru frosnir í sókninni og við gáfum þeim engan tíma til að hugsa. Þá verður verkefni okkar markvarðanna auðvelt,“ sagði Björgvin.

Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í E-riðli á miðvikudaginn.

„Við erum erkifjendur og höfum spilað oft á móti þeim. Við ætlum að fara með tvö stig í milliriðla, það er klárt,“ sagði Björgvin að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×