Lífið

Hræðilegt að heyra pabba skipuleggja sína eigin jarðarför

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sylvía Hall missti föður sinn árið 2012 eftir baráttu hans við krabbamein.
Sylvía Hall missti föður sinn árið 2012 eftir baráttu hans við krabbamein.

Sylvía Hall er 23 ára laganemi sem missti föður sinn Jónas Egilsson, vegna krabbameins árið 2012 þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul. Eðlilega vissi hún ekki hvernig ætti að vinna úr sínum málum. Í dag heldur hún úti hlaðvarpi um missi og sorg hér á Vísi.

„Hann greinist með krabbamein árið 2009 og það tók ellefu mánuði að greina það. Þegar við fengum loksins greininguna var það alveg léttir út af fyrir sig, því það var búið að vera ákveðin óvissa en á sama tíma veit ég, sem tólf ára barn, ekkert meira um krabbamein að fólk væri að deyja úr því,“ segir Sylvía Hall í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Það var svona fyrsta hugsun sem kemur upp í kollinn á mér. Svo veit ég að það er ekki rétt í dag en þarna hélt lífið bara áfram.“

Pabbinn sem kom inn í líf þeirra systra þegar þær voru ungar var skipstjóri, hörkunagli sem var ekki að gera mikið úr sjúkdómi sínum.

Hafði fyrst ekki áhrifa á daglegt líf

„Þetta var svosem aldrei neitt sem hafði einhver áhrif á okkar daglega líf. Ég var bara í skólanum, hann var bara hress og maður vissi af krabbameininu en ekkert meira en það.“

Í maí 2012 átti hann að fara í aðgerð þar sem skera átti meinið burt. Aðgerðin gekk ekki eins  til stóð en mamma Sylvíu, sem er sjúkraliði, sá að ekki væri allt með felldu. Dæturnar voru ekki að meðtaka alvarleikann, ekki frekar en litli bróðir þeirra.

„Ég vissi alveg að hann væri veikur en þóttist ekki sjá það að það væri alvarlegt. Svo er ákveðið stutta eftir aðgerðina í maí að pabbi og bróðir minn, sem var þá fimm ára, fari austur á Hornarfjörð til fjölskyldunnar okkar þar. Aðallega út af því að mamma mín var að vinna, ég var að vinna og kannski enginn til að hafa ofan af fimm ára barni á meðan og pabbi bara að jafna sig.“

Sylvía með föður sínum á góðri stundu.

Hún segist muna eftir augnabliki á þessum tíma þegar móðir hennar að tala við föður hennar í símann og um að hann sé ekki nægilega hress.

„Þá kom þessi raunverulega hugsun upp í kollinn, að pabbi minn gæti dáið. Að ég gæti orðið stelpan sem missti pabba sinn. Og þegar þú ert fimmtán ára þá er það einhver stimpill sem þú hugsar út í. Ég hafði alveg heyrt að fólk gæti dáið en við lifum öll í búbblu að við erum ósnertanleg. En ég gat ekki trúað því að ég myndi lenda í þessu.“

Hún segir að þegar faðir hennar kom heim eftir ferðina hafi verið mjög skýrt að það væri ekki slæmt að gerast.

„Þarna fer eitthvað ferli í gang. Fjölskyldan þjappar sér saman og vinirnir koma nær. Tíminn eftir þetta rennur saman í eitt. Ég myndi ekki segja að hann væri í móðu, ég man rosalega margt en ég man ekkert hvernig tíminn leið.“

Gott eftir á að hyggja

Foreldrar hennar ákváðu að vanda sig til að hafa allt á hreinu, og presturinn kom heim.

„Ég sit inni í herbergi og heyri, átti hundrað prósent ekki að heyra þetta, að pabbi er að skipuleggja sína eigin jarðaför. Það var hræðilegt, ég ætla ekki að ljúga því. Eftir á að hyggja var þetta ofboðslega gott þar sem athöfnin var eftir hans höfði.“

Hún segir að eftir þetta hafi atburðarásin verið mjög hröð.

„Þau gifta sig þarna á föstudegi og það er lítil veisla heima þarna fimmtánda. Pabbi er furðuhress dagana á undan og gat alveg verið frammi að spjalla eins og hann gat. Svo kem ég heim um kvöldið og mamma og pabbi nýkomin af bílasölurúnti. Honum var mjög umhugað að kaupa sér nýjan bíl, þrátt fyrir þetta allt saman. Hann er mjög slappur og mamma segir strax að við værum að fara niður á spítala.“

Þau taka sig til og krakkarnir áttu að bíða heima.

Sylvía heldur úti hlaðvarpsþættinum Missir á Vísi.

„Ég man þegar þau eru að taka sig til þá lít ég á stóra klukku í anddyrinu og sé að klukkan er kominn yfir miðnætti. Þá átti pabbi afmæli. Hann og systir mín eiga afmæli 16. júlí. Það síðasta sem ég segi við pabba minn er til hamingju með afmælið. Hann segir takk, við sjáumst. Svo fer hann upp á spítala og ég sé hann ekki meir. Hann deyr þremur, fjórum dögum seinna.“

Sylvía treysti sér ekki til að fara upp á spítala til föður síns.

„Mér fannst mjög erfitt að fara þarna upp eftir og fannst ekki gott að sjá hann liggja fyrir. Svo heyri ég mömmu koma heim og fatta strax hvað hafði gerst. Þú ert búin að undirbúa þetta högg lengi en þegar þú heyrir þetta fer allt líf úr þér, þú ert bara alveg tómur.“

Hún man lítið eftir næsta ári og var í hálfgerðri sjálfstýringu en tók skólann föstum tökum, kláraði tíunda bekk í Hólabrekkuskóla með góðar einkunnir og fór í Versló.

„Mér fannst voða gott að fara í þetta nýja umhverfi þar sem ég var enginn og ekki stelpan sem hafði misst pabba sinn. Þegar ég fór í Versló þá fékk ég alveg að búa mig til.“

Hún lýsir föður sínum með þessum orðum. „Pabbi var bestur, ég veit að það er algjör klisja. Hann kom inn í líf mitt þegar ég er fimm ára og systir mín tíu ára og það bara small strax. Hann var bara pabbi minn og ég var bara stelpan hans. Fjölskylda hans var fjölskyldan mín og ég upplifði aldrei að ég ætti stjúpeitthvað. Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir þann tíma sem ég fékk.“

Í dag heldur Sylvía úti hlaðvarpi á Vísi um sorg og missi og má hlusta á þættina hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×