Eins og aðrir stuðningsmenn Los Angeles Lakers er Jack Nicholson í sárum eftir fráfall Kobe Bryant. Körfuboltagoðsögnin fórst í þyrluslysi í fyrradag ásamt átta öðrum, þ.á.m. 13 ára dóttur sinni, Giönnu.
„Viðbrögð mín eru þau sömu og hjá nánast öllum í Los Angeles,“ sagði Nicholson við CBS.
„Þar sem við höldum að allt sé í lagi er stór hola í veggnum. Ég var vanur að hitta Kobe og tala við hann. Þetta var skelfilegur atburður.“
Nicholson er sennilegai þekktasti stuðningsmaður Lakers en hann á sæti á hliðarlínunni í Staples Center.
Nicholson rifjaði upp fyrsta skiptið sem leiðir þeirra Kobe lágu saman.
„Ég stríddi honum í fyrsta skiptið sem hittumst. Það var í Madison Square Garden í New York. Ég lét hann hafa körfubolta og spurði hvort hann vildi árita hann fyrir mig. Hann horfði á mig eins og ég væri brjálaður,“ sagði Nicholson.
Leik Los Angeles-liðanna, Lakers og Clippers, sem átti að fara fram í nótt hefur verið frestað vegna fráfalls Kobe.

