Íslensku CrossFit drottningarnar Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir gera meira en að æfa saman þessa dagana.
Katrín Tanja Davíðsdóttir eyddi jólum og áramótum á Íslandi og er ekki farin enn aftur til Bandaríkjanna þar sem hún jafnan stundar æfingar sínar. Hún er að hjálpa vinkonu sinni og öðrum tvöföldum heimsmeistara í CrossFit, Anníe Mist Þórisdóttur.
Anníe Mist Þórisdóttir segir stuttlega frá því að þær stöllur séu að vinna að verkefni saman en þar má sjá þær flottar og stífmálaðar í æfingagallanum.
Verkefnið tengist vörumerkinu „Dóttir“ sem íslensku íþróttakonurnar okkar hafa verið duglegar að halda á lofti út um allan heim.
Nú síðast var Anníe Mist og fleirum sýndur sá heiður að æfingin „Dóttir“, sem var frumsýnd á CrossFit mótinu í Reykjavík á dögunum var ein af æfingunum sem keppt var í á Dubai CrossFit mótinu í desember.
Katrín Tanja er að byrja aftur að æfa af krafti eftir að hafa glímt við erfið bakmeiðsli sem komu meðal annars í veg fyrir þátttöku hennar á mótinu í Dúbaí.
Katrín Tanja hefur sýnt lítið brot af upptökunum í Instagram sögum sínum og margir eru örugglega orðnir spenntir fyrir því hvað þær Anníe Mist og Katrín Tanja ætla að gefa út.
Anníe Mist segir formlega frá þessu Dóttir-verkefni þeirra á Instagram síðu sinni.
„Ég get ekki beðið eftir því að fá að deila þessu með ykkur öllum,“ skrifar Anníe Mist á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.
Enn neðar má sjá síðan færslu Katrínar Tönju og þar er ekki mikið meira hefið upp en í færslu stöllu hennar. Við verðum því að bíða spennt og sjá til hvað kemur út úr þessu hjá þeim.